Sjóstangaveiðifélag Vestmannaeyja

Lög og reglur Sjóstangaveiðifélags Vestmannaeyja

 

I Nafn og tilgangur

 

1.   Nafn félagsins er Sjóstangaveiðifélag Vestmannaeyja, skammstafað SJÓVE. Aðsetur þess og varnarþing er í Vestmannaeyjum.

 

2.   Félagið er aðili að Landssambandi sjóstangaveiðifélaga, Sjól.

 

3.   Tilgangur félagsins er að gera félagsmönnum mögulegt að stunda stangaveiði í sjó og efla áhuga almennings á íþróttinni.

 

4.   Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að halda sjóstangaveiðimót, með því að hvetja félagsmenn til þátttöku í mótum aðildarfélaga Sjól, með útgáfu og kynningarstarfi og öðrum þeim aðferðum sem stjórn og aðalfundur félagsins ákveður.

 

II Aðild

 

1.   Aðild að félaginu er heimil öllum þeim sem verða 16 ára eða eldri á inntökuárinu, hafa áhuga á sjóstangaveiði. Við inngöngu skal nýr félagsmaður greiða félagsgjald þess árs.

 

2.   Félagsmenn skulu ávallt vera reiðubúnir til að vinna einstök störf fyrir félagið að beiðni stjórnar. Hver sá sem gerir sig sekan um að hlíta ekki lögum og reglum félagsins hverju sinni getur búist við að hann verði felldur af félagaskrá að undangenginni aðvörun.

 

3.   Aðalfundur félagsins ákveður árgjald félagsmanna. Fullgildir félagar teljast þeir einir sem eru í skilum við félagið. Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjöld sl. tveggja ára, telst hann sjálfkrafa hafa sagt sig úr félaginu og fellur út af félagsskrá þess.

 

4.   Óski félagsmaður að hætta í félaginu skal hann tilkynna það formanni félagsins með tölvupósti eða bréflega.

 

III Stjórnun og fundir

 

1.   Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Fundinn skal halda í febrúarmánuði. Fundinn skal boða með útsendu fundarboði, með minnst 7 daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað

 

2.   Á dagskrá aðalfundar séu eftirtalin atriði í þessari röð:

 

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.

 

2. Reikningsskil og samþykkt reikninga.

 

3. Kosning stjórnar. 

 

4. Kosning tveggja skoðunarmenn reikninga.

 

5.  Tillögur stjórnar um starfsemi starfsársins, fjárhagsáætlun og ákvörðun félagsgjalda.

 

6. Lagabreytingar.  

 

7. Önnur mál.

 

3.   Almenna félagsfundi skal halda þegar stjórnin telur tilefni til eða þegar minnst fjórðungur félaga krefst þess. Kröfu um fund skal leggja skriflega fyrir stjórn og skal kröfunnar getið í útsendu fundarboði sem senda skal með hæfilegum fyrirvara. Einnig skal halda félagsfund fyrir aðalfund Sjól komi fram tillögur að breytingum á veiðireglum eða lögum Sjól. Við almennar atkvæðagreiðslur á fundum félagsins ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða. Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg ef þess er óskað. Halda skal gerðabækur um alla félags- og stjórnarfundi.

 

4.   Stjórn félagsins skipa 5 menn og tveir til vara.

 

Formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur

 

Ritari félagsins tekur sæti formanns í forföllum hans.

 

Formann skal kjósa sérstaklega, til eins árs í senn.

 

Aðrir stjórnarmenn er kjörnir til tveggja ára í senn, ritari og annar meðstjórnandinn annað árið og gjaldkeri og hinn meðstjórnandinn hitt árið.Varamenn eru kjörnir til eins árs í senn.

 

5.   Stjórnin hefur á hendi allar framkvæmdir félagsins á milli funda.

 

IV Mót

 

1.   Félagið heldur árlega eitt innanfélagsmót og eitt opið mót skv. nánari reglum Sjól. Stjórn félagsins sér um undirbúning og framkvæmd móta. Stjórnin getur þó skipað mótsstjóra og aðra starfsmenn til að sjá um framkvæmd móta.

 

2.   Formaður félagsins ber ábyrgð á að skila veiðiskýrslum til Fiskistofu.

 

3.   Veiðimenn skulu fylgja settum reglum í hvívetna og gæta sérstaklega að góðri meðferð afla og góðri umgengni. Allur afli skal seldur til að standa undi kostnaði við mótshald. Enginn veiðimaður á tilkall til aflans.

 

4.   Félagsmenn geta sótt um styrk á mót hjá öðrum aðildarfélögum Sjól, enda skal sá taka þátt í eða vinna við opið mót og/eða innanfélagsmót Sjóve. Skal sá styrkur ákvarðast á aðalfundi ár hvert og rúmast innan fjárhagsáætlunar. Stjórn félagsins getur veitt aukastyrk til einstakra félagsmanna ef hún telur þörf á, enda rúmist slíkt innan fjárhagsáætlunar.

 

V Lagabreytingar og slit

 

1.   Hætti félagið störfum skulu eignir félagsins ávaxtaðar og varðveittar af Sjól, þar til aftur verði sett á stofn sjóstangaveiðifélag á svæði félagsins sem fær þá eignirnar til fullra umráða. Enginn félagsmanna á tilkall eigna félagsins við brotthvarf úr félaginu eða við slit þess.

 

 2.   Tillögur um lagabreytingar skal bera fram á aðalfundi og skulu þær hafa borist stjórn félagsins í síðasta lagi 1. feb. Skulu þær sendar með fundarboði aðalfundar og ná því aðeins samþykki að þær hljóti 2/3 greiddra atkvæða á fundinum.

 

 

 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi 22. feb 2014.

Skráning í mót

Myndir


Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012